5.5.2010
Sætkartöflusúpa
2 msk smjör
1 laukur, gróft saxaður
1 miðlungsstór blaðlaukur, gróft saxaður (ekki dökkgræni hlutinn)
2 hvítlauksrif, smátt skorin
7-800gr sætar kartöflur, skornar í bita
1 ltr grænmetissoð (má vera kjúklingasoð)
1 kanilstöng
¼ tsk múskat
3 dl matreiðslurjómi
2 matskeiðar hlynsíróp
Bræðið smjörið í potti við meðalhita og bætið lauknum út í og látið krauma í u.þ.b. 5 mín. Bætið næst við blaðlauknum og hvítlauknum og látið krauma í 5 mín tilviðbótar.
Þegar laukurinn er orðinn glær og mjúkur bætið þá við sætu kartöflunum, grænmetissoðinu, kanilstönginni og múskatinu. Látið suðuna koma upp og leyfið þessu að malla í 30 mín.
Takið kanilstöngina upp úr og maukið súpuna. Hægt er að nota töfrasprota eða ausa súpunni í skömmtum í matvinnsluvél.
Þegar búið er að mauka súpuna er rjómanum og hlynsírópinu bætt við og súpan látin hitna vel í gegn.
Tillaga að því sem hægt er að gera við valhnetukjarna og setja ofan á sætkartöflusúpuna:
strá smá sykri og salti á þær, setja nokkra edikdropa og pínulitla smjörklípu og velta þeim saman í skál, svo á plötu og inn í ofninn 150 gráður í 15 mín og leyfa þeim svo að kólna. Grófsaxa þær svo og strá ofan á súpuna. Einnig gott að strá nokkrum bitum af gráðaosti yfir súpuna (ekki of mikið annars yfirgnæfir osturinn bragð súpunnar).
Flokkur: Heitur matur hvers konar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.