Fiskur í jógúrtpestósósu

7-800 grömm þorskur, roðflettur og beinlaus (væri hægt að nota ýsu en ég er hrifnari af þorsk sjálf)
1 dós hrein jógúrt
3 msk tómatpestó (úr sólþurrkuðum tómötum)
1 knippi steinselja
salt og pipar

Skerið fiskinn í stóra bita.  Blandið saman jógúrt, pestó og hnefafylli af saxaðri steinselju í skál, kryddið með salti og pipar.  Veltið fiskinum upp úr blöndunni og látið standa á meðan grillið í ofninum er hitað.  Raðið fiskinum í eldfast fat og hellið sósunni sem eftir verður í skálinni jafnt yfir.  Setjið í ofninn, fremur ofarlega og grillið í 6-8 mínútur eða þar til fiskurinn er að verða steiktur í gegn.  Látið hann standa í 1-2 mín eftir að hann er tekinn úr ofninum.  Stráið saxaðri steinselju yfir og berið fram með t.d. brúnum hrísgrjónum eða bankabyggi og fersku salati.

Ef vill er fínt að drekka með þessu ferskt hvítvín frá Chablis. 


Þríhyrningsbrauðterta

Brauðsneiðar
olía
1-2 hvítlauksrif, söxuð
1 poki ferskt spínat
1 askja ricotta ostur eða hreinn rjómaostur
1 bolli rifinn ostur t.d. cheddar
1/2 bolli svartar ólífur, saxaðar
1 msk rifinn börkur af sítrónu
salt og pipar
ferskur mozzarellaostur

Hitið olíu á pönnu og léttsteikið hvítlaukinn.  Bætið spínatinu á pönnuna og steikið áfram stutta stund.  Blandið saman með osti, ólífum og sítrónuberki og bætið spínatblöndunni við.  Saltið og piprið eftir smekk.  Smyrjið blöndunni á brauðsneiðarnar og leggið tvær og tvær sneiðar saman.  Skerið nú samlokurnar í tvo hluta og raðið þeim á ofnplötu þannig að þær myndi pýramíta.  Dreifið söxuðum mozzarella osti yfir og bakið við 180 gráður í 10-15 mínútur


Rúllubrauð með pestóblöndu

1 rúllubrauð

Fylling:
1 krukka grænt pestó
1 bréf skinka, skorin í bita
50 g svartar ólfur, saxaðar
50 g sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 kúla mozzarella ostur skorin í bita
4 msk rifinn parmesanostur
pipar

Ofan á líka rifinn parmesanostur

Blandið saman pestói, skinku, ólífum, tómötum, hvítlauk, mozzarella og 4 msk af parmesanosti.  Piprið eftir smekk.  Smyrjið blöndunni á brauðið og rúllið upp.  Stráið rifnum parmesanosti yfir og bakið við 180 gráður í 10-15 mínútur.

 


Grænkálsbaka með beikoni, lauk og piparosti

smjörúði
300 g smjördeig
500 g gular baunir eða aðrar þurrkaðar baunir (notað til að forbaka deigið þannig að þær skipta ekki aðalmáli)
lítill pakki beikon eða kannski 5-7 sneiðar
1 stór laukur, skorinn í sneiðar og steiktur
200 g grænkál, skorið í bita og soðið í 3 mín (væri hægt að nota broccoli þarna í staðinn)
1/2 piparostur, skorinn í þunnar sneiðar
3 egg
1/2 dl mjólk
salt og pipar

Hita ofninn í 180 gráður.  Úða í bökuformið með smjörúðanum.  Fletja smjördeig út þar til það er ca 4-5 mm á þykkt gatið deigið með gaffli.  Leggið deigið ofan á formið og þrýstið köntunum niður.  Skerið umframdeig frá.  Hellið baununum ofan á deigið og bakið í 15 mín.  Baunirnar koma í veg fyrir að deigið lyfti sér.  Hellið baununum úr forminu.  Setjið beikon, lauk, grænkál og ost í formið.  Blandið saman eggjum og mjólk ásamt salt og pipar.  Hellið blöndunni í formið og bakið í 20 mín. 
Fyrir þá sem það vilja er gott að drekka með þessari böku ferskt sauvignon blanc t.d. Beringer Fumé Blanc eða Sancerre frá Frank Millet. 


Kæfubrauðterta m/bæði grófu og fínu brauði

2 brauðtertubrauð
1 gróft brauð
400 g góð lifrarkæfa
rjómi/mjólk
200 g rjómaostur hreinn eða m/kryddjurtum
300 g sýrður rjómi
1 salathöfuð sneitt fínt

Skera skorpu utan af öllu brauðinu.  Mýkið lifrarkæfuna með smávegis rjóma eða mjólk.  Mýkið rjómaost og blandið sýrðum rjóma út í.  Setjið tvær lengjur af fínu brauði á disk og smyrjið með lifrarkæfu.  Setjið lag af grófu brauði ofan á og smyrjið með rjómaostablöndu, setjið svolítið af salati með.  Setjið til skiptis báðar brauðtegundirnar, lifrarkæfu og rjómaostablöndu þar til brauð klárast eða tertan orðin nógu há. 

Utan á brauðtertuna:  Smyrjið tertuna að utan með majónesi blandað við mangó-karrýsósu.  Salat sett t.d. á hliðarnar.  Ostasneið rúllað utan um 1/2 ólífu og raðað ofan á ásamt þunnum laxasneiðum, rækjum og rauðum kavíar.  Einnig sniðugt að raða nokkrum dill eða kóríanderkvistum ofan á ásamt radísum, kumquat og fínt rifnum gulrótum. 


Sjávarréttabrauðterta m/rósmarín, hvítlauk og hvítkáli

1 brauðtertubrauð, langskorið og skorpa skorin frá

Fylling:
2 msk olía
1 laukur, fínt saxaður
2-3 hvítlauksgeirar, pressaðir
2 msk rósmarínnálar
2 dl hvítvín
100 g hörpuskel
200 g einhver hvítur fiskur skorinn í bita
100 g rækjur
1/4 hvítkálshöfuð, gróft rifið með rifjárni
400 g sítrónumajones
salt og pipar

Hita olíu í pott og látið lauk, hvítlauk og rósmarín krauma í henni í mínútu.  Bætið þá hvítvíni, hörpuskel og hvítum fiski í pottinn og hleypið suðunni rólega upp í 2 mín.  Veiðið fiskinn upp úr soðinu og kælið.  Sjóðið soðið niður um 3/4 og kælið.  Takið nokkrar rækjur, hörpuskel og hvítan fisk frá og geymið til skrauts, setjið restina af fiskinum og fiskisoðinu í matvinnsluvél og grófmaukið.  Setjið maukið í skál ásamt hvítkáli og sítrónumajonesi (hvítara heldur en þetta venjulega og blandað við sýrðan rjóma) og blandið vel saman.  Smakkið til með salti og pipar.  Smyrjið á ca 4-5 brauðtertusneiðar með maukinu og leggið saman.  Skreytið tertuna með fiskinum sem var tekinn var frá, ferskum kryddjurtum og fleiru sem ykku dettur í hug.


Skinkubrauðterta

Hvítt brauðtertubrauð í 3 lögum
150 g majones
100 g sýrður rjómi
aromatpikant krydd
150 g skinka
5 stk harðsoðin egg
½ dós grænn aspas 
Hrærið saman majonesi, sýrðum rjóma og kryddið.  Skerið skinkuna í sneiðar og stappið eggin með gaffli, Brytjið aspasinn niður og blandið síðan öllu saman.  Setjið skinkusalatið á milli laga brauðtertunnar og skreytið með skinku og öðru tiltæku.

Bloggfærslur 26. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband