Færsluflokkur: Heitur matur hvers konar

Sætkartöflusúpa

2 msk smjör
1 laukur, gróft saxaður
1 miðlungsstór blaðlaukur, gróft saxaður (ekki dökkgræni hlutinn)
2 hvítlauksrif, smátt skorin
7-800gr sætar kartöflur, skornar í bita
1 ltr grænmetissoð (má vera kjúklingasoð)
1 kanilstöng
¼ tsk múskat
3 dl matreiðslurjómi
2 matskeiðar hlynsíróp

 Bræðið smjörið í potti við meðalhita og bætið lauknum út í og látið krauma í u.þ.b. 5 mín. Bætið næst við blaðlauknum og hvítlauknum og látið krauma í 5 mín tilviðbótar.
Þegar laukurinn er orðinn glær og mjúkur bætið þá við sætu kartöflunum, grænmetissoðinu, kanilstönginni og múskatinu. Látið suðuna koma upp og leyfið þessu að malla í 30 mín.
Takið kanilstöngina upp úr og maukið súpuna. Hægt er að nota töfrasprota eða ausa súpunni í skömmtum í matvinnsluvél.
Þegar búið er að mauka súpuna er rjómanum og hlynsírópinu bætt við og súpan látin hitna vel í gegn.
   Tillaga að því sem hægt er að gera við valhnetukjarna og setja ofan á sætkartöflusúpuna:
strá smá sykri og salti á þær, setja nokkra edikdropa og pínulitla smjörklípu og velta þeim saman í skál, svo á plötu og inn í ofninn 150 gráður í 15 mín og leyfa þeim svo að kólna. Grófsaxa þær svo og strá ofan á súpuna.  Einnig gott að strá nokkrum bitum af gráðaosti yfir súpuna (ekki of mikið annars yfirgnæfir osturinn bragð súpunnar). 


Smjörkjúklingur (indverskt)

1 kg kjúklingabringur
2 tsk garam masala
2 tsk mulinn kóríander
3/4 tsk chilli duft
2 tsk rifinn ferskur engifer
3 hvítlauksrif, pressuð
2 msk hvítvínsedik
1/4 bolli (60 ml) tómat paste
1/2 bolli (125 ml) jógúrt
80 g smjör
1 stór (200 g) fíntsaxaður laukur
1 kanilstöng
4 kardamommufræ sem rist er í endilöng
1 tsk salt
3 msk paprika
425 g tómat puree
3/4 bolli kjúklingasoð
1 peli matreiðslurjómi

Aðferð:  Byrjið á því að hluta kjúklingabringurnar í 3 hluta (m.v. að þær séu litlar).  Hrærið saman garam masala, kóríander, chillidufti, engiferi, hvítlauk, ediki, tómatpaste og jógúrt og það er marineringin.  Veltið kjúklingabitunum vel upp úr marineringunni og hyljið og kælið yfir nótt.  Eldun:  Hita smjör í stórum potti ásamt lauknum, kanilstöng og kardamommufræjunum.  Eldið og hrærið þar til laukur hefur brúnast aðeins.  Bætið kjúkling út í þetta og eldið í 5 mín.  Bætið salti, papriku, tómatpuré og kjúklingasoði út í og leyfið þessu að malla í 10 mín og passið að hræra í stöku sinnum.  Bætið að síðustu rjómanum út í að leyfið að malla áfram í 10 mín eða þar til kjúklingur er orðinn meyr. 

Gott er að bera þetta fram með heimatilbúnu Naan brauði


Beikon kjúklingur

·        6 sneiðar beikon
·         1 msk smjör
·         1 msk ólífuolía
·         4-6 kjúklingabringur
·         1 saxaður laukur
·         3 hvítlauksrif, pressuð eða rifin fínt
·         smá salt
·         smá pipar
·         1 bolli cheddarostur (eða ostur sem til er sem bráðnar auðveldlega)

Steikja beikon á pönnu þar til það er stökkt.  Mylja það niður og geyma.  Nú er beikonfitan látin leka af pönnunni en gott er að leyfa örlitlu að vera eftir á pönnunni og blanda við smjöri og olíu til að steikja kjúklingabringurnar í.  Þær eru gegnsteiktar á pönnunni og settar í eldfast fat.  Laukur og hvítlaukur er eldaður á pönnunni í afgangnum af feitinni þar til laukurinn er mjúkur, bætið þá við beikoni, salt og pipar.  Laukbeikonblöndu er dreift yfir kjúklingabringur og rifinn ostur yfir.  Þetta er bakað við 180 gráður í 10-15 mín eða þar til osturinn er bráðinn.   

Gúllas og kartöflumús

600 g nautakjöt í teningum
100 g beikon
2-3 laukar
1 1/2 msk paprikuduft
1 tsk kúminduft
cayennepipar, salt,
2 paprikur
1 dós tómötum
1 msk tómatþykkni
1 dl sýrður rjómi
50 g smjörlíki

Kartöflumús:
1, 5 kg kartöflur
150 g smjör
0,5 l sjóðandi mjólk

Aðferð
Best er að kaupa beikonkurl eða bita beikonið smátt og matreiða það.  Laukur, krydd og paprika léttsteikist.  Kjötið á að brúna í smjörlíkinu og hellið svo beikoni og lauk yfir ásamt tómötum úr dós.  Þetta er látið malla í 45 mínútur eða þar til kjötið er orðið meyrt.  Að síðustu er sýrðum rjóma hellt út í og þetta látið malla aðeins lengur eða þar til rétturinn er tilbúinn. 

Kartöflurnar eru skrældar og skornar í sneiðar og soðnar í vatni án salts.  Vatninu er hellt af og kartöflurnar þerraðar aðeins.  Handþeytari eða töfrastafur er notaður til að mauka kartöflurnar og út í þær fer sjóðandi heit mjólkin, salt og pipar eftir smekk og allra síðast kalt smjörið.  


Klassískt entrecote bordelaise

2 (300  g)  entrecote steikur
100 g smjör
2 skalottulaukar, saxaðir fínt (ég hef notað rauðlauk og skorið hann í mjóa strimla)
100 ml rauðvín
200 ml demi-glace eða 200 ml nautakjötssoð
2 msk hökkuð steinselja (hef sleppt og það gerir minna til heldur en maður heldur)
Salt
Svartur pipar

Snöggsteiktu steikurnar:

 

Kryddaðu steikurnar með salti og pipar á báðum hliðum.  Hitaðu pönnuna í botn og settu helming smjörsins á hana.  Settu steikurnar á pönnuna og brúnaðu á báðum hliðum - ca 2-3 mín á hverri hlið til að loka kjötinu og leyfðu svo kjötinu að eldast skv smekk þínum eða hentu þeim smástund inn í ofn með kjöthitamæli. Þegar steikur eru tilbúnar þá eru þær látnar bíða. 

 

Eldaðu laukinn:

 

Í sömu pönnu eldaðu þá laukinn.  Laukurinn á að verða mjúkur og rétt að byrja að brúnast. 

 

Fjarlægðu smjör af pönnunni. 

 

Þegar laukurinn er tilbúinn bættu þá rauðvíni á pönnunni og hrærðu vel í. 

 

Bættu núna við nautakjötssoðinu og hrærðu þar til allt hefur náð að blandast vel saman, leyfðu þessu að malla í 5 mín eða þar til "redúserað" eða soðið niður ... uppgufun hefur átt sér stað. 

 

Skerðu smjörið sem eftir er í hæfilega litla ferninga og bættu þeim í sósuna, einum í einu og hrærðu á milli.  Þá blandast smjörið vel í blönduna sem fyrir er og þetta gefur sósunni fallega áferð og rétt bragð í lokin.

 

Raðaðu á diska:

 

Skerðu kjötið þvert í þykkar sneiðar og raðaðu á diska. 

Bættu smávegis hakkaðri steinselju við sósuna og helltu þá smávegis af sósunni yfir hverja steik. 

 

Afgangur sósunnar ætti að bera á borð í sósuskál. 

 

Ágætt er að bera þennan rétt fram með snöggsteiktum litlum kartöflum, ofnbökuðu rótargrænmeti og strengjabaunum svo dæmi séu tekin. 


Satay kjúklingur - quick and dirty version

Þessi hentar bæði þegar maður er að flýta sér og einnig til að nota sem smárétt í veisluna.

Kjúklingalundir, kryddaðar með einhverju kjúklingakryddi eða hlutlausu kryddi og léttsteiktar á pönnu, bara rétt að loka þeim.
Blanda saman satay sósu og smooth hnetusmjöri og því smurt á báðar hliðar lundanna sem lagðar eru í ofnfast fat eða ofnskúffu. 
Sesamfræjum stráð yfir aðra hliðina og þessu skellt inn í ofn við ca 180 gráður í u.þ.b. 20 mín eða þar til tilbúið.

Ef nota á þetta sem smárétti í veislu er tilvalið að setja kjúklingalundirnar á spjót og festa í fallegan ananas og þá er þetta orðin fín borðskreyting. 


Spaghetti aglio e olio

agliooglio

Klassískur ítalskur spaghettiréttur sem er svo einfaldur að það er unun að búa hann til

Per manneskju er notað:
100 g spaghetti
2 msk virkilega góð ólívuolía
1 hvítlauksrif
smávegis af þurrkuðu muldu chili 
söxuð steinselja (gott að nota flatlaufssteinselju)

Spaghetti er soðið þar til það er al dente.  Olía er hituð ásamt hvítlauk sem skorinn er í þunnar sneiðar og út í þetta fer chili.  Á þessu stigi málsins verður að passa sig að ofelda ekki hvítlaukinn því annars verður hann bitur og í raun óætur.  Kryddolíunni er svo hellt yfir spaghettíið og steinselja sett yfir eftir smekk.  Nauðsynlegt er að hafa við höndina ferskan parmesanost til að setja örlítið af yfir. 


Pizzufiskur

aðeins minna en 1 dós af uppáhaldstómatsósunni t.d. Hunt's pizza sauce
nokkur basilíkublöð, bæði í réttinn og til skreytingar ef vill
7-800 g þorskflök, roð og beinlaus
salt og pipar
smávegis olía
ca 20-30 steinlausar svartar ólífur
1 kúla ferskur mozzarella ostur (er líka hægt að nota venjulegan ost)

Hita ofn í 200 gráður. Hita sósu í potti ásamt söxuðum basilíkulaufum ca 8 stk.  Fiskur skorinn í hæfilega stór stykki og krydduð með salt og pipar.  Eldfast mót smurt með olíu.  Gott er að raða fiskstykkjunum í það, hella sósunni yfir og dreifa svo ólífunum þar ofan á.  Breiða álpappír yfir mótið og baka fiskinn í ofninum í ca 15 mín.  Takið nú fiskinn út úr ofninum, hækkið ofninn í 215 gráður, takið álpappír af og dreifið niðurskornum mozzarella ofan á.  Bakið áfram í ca 10 mín eða þar til osturinn er byrjaður að taka smá lit.  Fínt að skreyta með basilíkulaufum. 


Fiskur í jógúrtpestósósu

7-800 grömm þorskur, roðflettur og beinlaus (væri hægt að nota ýsu en ég er hrifnari af þorsk sjálf)
1 dós hrein jógúrt
3 msk tómatpestó (úr sólþurrkuðum tómötum)
1 knippi steinselja
salt og pipar

Skerið fiskinn í stóra bita.  Blandið saman jógúrt, pestó og hnefafylli af saxaðri steinselju í skál, kryddið með salti og pipar.  Veltið fiskinum upp úr blöndunni og látið standa á meðan grillið í ofninum er hitað.  Raðið fiskinum í eldfast fat og hellið sósunni sem eftir verður í skálinni jafnt yfir.  Setjið í ofninn, fremur ofarlega og grillið í 6-8 mínútur eða þar til fiskurinn er að verða steiktur í gegn.  Látið hann standa í 1-2 mín eftir að hann er tekinn úr ofninum.  Stráið saxaðri steinselju yfir og berið fram með t.d. brúnum hrísgrjónum eða bankabyggi og fersku salati.

Ef vill er fínt að drekka með þessu ferskt hvítvín frá Chablis. 


Pizza

650 g hveiti
400 ml vatn
3 - 3,5 msk góð olía
1 tsk salt
1,5 pakki ger

Hnoðað þar til einsleitt, skipt í fjórar bollur og látið hefast í ca hálftíma. 

Pizzusósan er yfirleitt 50/50 af Hunt's seasoned tomato pizza sauce og af Hunt's tomatoes sauce

Bakað eins heitt og ofninn kemst í nógu langan tíma
pizza

Mexíkósk fylling/álegg:
Skipta helming af pizzusósu út og setja salsa sósu,
rifinn kjúklingabringa,
rautt ferskt chili,
rjómaostur,
maísbaunir,
Tabasco slettur ef maður þolir,
grófmuldar nacho flögur.

Ítölsk fylling/álegg:
smávegis venjulegur rifinn ostur,
ferskur parmesan ostur, rifinn eða skorinn í sneiðar ,
smávegis af rjómaosti,
Prosciutto crudo (ítölsk hráskinka) í grófum ræmum,
furuhnetur,
Rucola salati dreift yfir þegar pizzan er nýkomin út úr ofninum.

Kjötveislan
venjulegur rifinn ostur,
pepperoni,
kjötbollur,
rjómaostur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband