Þykkar litlar pönnukökur

Hráefni:
• 3 bollar hveiti 
• 3 msk sykur
• 3 tsk lyftiduft
• 1 1/2 tsk matarsódi
• 3/4 tsk salt
• 3 bollar súrmjólk/þykkmjólk/AB mjólk (gott að nota t.d. jarðaberja AB mjólk eða aðra bragðbætta AB mjólk til að sæta pönnukökurnar enn fremur)
• 1/2 bolli mjólk
• 3 egg
• 1/3 bolli smjör, bráðið

Aðferð:
1. Blanda skal saman í stórri skál hveiti, sykri, lyftidufti, matarsóda og salti.  Í annarri skál á að þeyta saman súrmjólk, mjólk, eggjum og bráðnu smjöri.  Innihald þessara tveggja skála á ekki að blandast saman fyrr en pannan er orðin heit og allt tilbúið til steikingar.
2. Hitaðu olíu á pönnu á miðlungi hita.  Þú veist að pannan er tilbúin þegar þú getur látið vatnsdropa lenda á pönnunni og vatnsdropinn kraumar ef svo má að orði komast. 
3. Helltu nú blautu blöndunni í þurru blönduna með því að nota viðarsleif eða gaffal til að blanda þessu tvennu saman.  Hrærðu þessu saman þar til þetta er rétt orðið einsleit blanda.  Menn þurfa að passa sig á því að hræra ekki of lengi.  Gott er að miða við hálfan bolla af blöndu fyrir hverja pönnuköku en hver og ein þarf góðan tíma á pönnunni því þær verða þykkar og léttar þegar best lætur.   


Spaghetti aglio e olio

agliooglio

Klassískur ítalskur spaghettiréttur sem er svo einfaldur að það er unun að búa hann til

Per manneskju er notað:
100 g spaghetti
2 msk virkilega góð ólívuolía
1 hvítlauksrif
smávegis af þurrkuðu muldu chili 
söxuð steinselja (gott að nota flatlaufssteinselju)

Spaghetti er soðið þar til það er al dente.  Olía er hituð ásamt hvítlauk sem skorinn er í þunnar sneiðar og út í þetta fer chili.  Á þessu stigi málsins verður að passa sig að ofelda ekki hvítlaukinn því annars verður hann bitur og í raun óætur.  Kryddolíunni er svo hellt yfir spaghettíið og steinselja sett yfir eftir smekk.  Nauðsynlegt er að hafa við höndina ferskan parmesanost til að setja örlítið af yfir. 


Kókoshvolfkaka með pekanhnetum

40 g smjör
70 g púðursykur
50 g kókosmjöl
100 g pekanhnetur
80 g súkkulaði saxað

Hitið ofninn í 180 gráður.  Bræðið smjör og setjið í skál, bætið púðursykri, kókosmjöli, pekanhnetum og súkkulaði saman við.  Setjið blönduna í botninn á smjörpappírsklæddu smelluformi.

Deig:
100 g smjör, mjúkt
100 g sykur
2 egg
1 tsk vanilludropar
100 g hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft

Hrærið saman smjör og sykur.  Bætið eggjum út í, fyrst öðru svo hinu og síðan vanilludropunum, hrærið vel saman.  Sigtið hveiti og lyftiduft út í og hrærið sman.  Smyrjið deiginu ofan á kókosblönduna.  Bakið kökuna í 25-30 mín og berið fram með þeyttum rjóma. 

Tekið úr kökublaði Gestgjafans


Pizzufiskur

aðeins minna en 1 dós af uppáhaldstómatsósunni t.d. Hunt's pizza sauce
nokkur basilíkublöð, bæði í réttinn og til skreytingar ef vill
7-800 g þorskflök, roð og beinlaus
salt og pipar
smávegis olía
ca 20-30 steinlausar svartar ólífur
1 kúla ferskur mozzarella ostur (er líka hægt að nota venjulegan ost)

Hita ofn í 200 gráður. Hita sósu í potti ásamt söxuðum basilíkulaufum ca 8 stk.  Fiskur skorinn í hæfilega stór stykki og krydduð með salt og pipar.  Eldfast mót smurt með olíu.  Gott er að raða fiskstykkjunum í það, hella sósunni yfir og dreifa svo ólífunum þar ofan á.  Breiða álpappír yfir mótið og baka fiskinn í ofninum í ca 15 mín.  Takið nú fiskinn út úr ofninum, hækkið ofninn í 215 gráður, takið álpappír af og dreifið niðurskornum mozzarella ofan á.  Bakið áfram í ca 10 mín eða þar til osturinn er byrjaður að taka smá lit.  Fínt að skreyta með basilíkulaufum. 


Fiskur í jógúrtpestósósu

7-800 grömm þorskur, roðflettur og beinlaus (væri hægt að nota ýsu en ég er hrifnari af þorsk sjálf)
1 dós hrein jógúrt
3 msk tómatpestó (úr sólþurrkuðum tómötum)
1 knippi steinselja
salt og pipar

Skerið fiskinn í stóra bita.  Blandið saman jógúrt, pestó og hnefafylli af saxaðri steinselju í skál, kryddið með salti og pipar.  Veltið fiskinum upp úr blöndunni og látið standa á meðan grillið í ofninum er hitað.  Raðið fiskinum í eldfast fat og hellið sósunni sem eftir verður í skálinni jafnt yfir.  Setjið í ofninn, fremur ofarlega og grillið í 6-8 mínútur eða þar til fiskurinn er að verða steiktur í gegn.  Látið hann standa í 1-2 mín eftir að hann er tekinn úr ofninum.  Stráið saxaðri steinselju yfir og berið fram með t.d. brúnum hrísgrjónum eða bankabyggi og fersku salati.

Ef vill er fínt að drekka með þessu ferskt hvítvín frá Chablis. 


Þríhyrningsbrauðterta

Brauðsneiðar
olía
1-2 hvítlauksrif, söxuð
1 poki ferskt spínat
1 askja ricotta ostur eða hreinn rjómaostur
1 bolli rifinn ostur t.d. cheddar
1/2 bolli svartar ólífur, saxaðar
1 msk rifinn börkur af sítrónu
salt og pipar
ferskur mozzarellaostur

Hitið olíu á pönnu og léttsteikið hvítlaukinn.  Bætið spínatinu á pönnuna og steikið áfram stutta stund.  Blandið saman með osti, ólífum og sítrónuberki og bætið spínatblöndunni við.  Saltið og piprið eftir smekk.  Smyrjið blöndunni á brauðsneiðarnar og leggið tvær og tvær sneiðar saman.  Skerið nú samlokurnar í tvo hluta og raðið þeim á ofnplötu þannig að þær myndi pýramíta.  Dreifið söxuðum mozzarella osti yfir og bakið við 180 gráður í 10-15 mínútur


Rúllubrauð með pestóblöndu

1 rúllubrauð

Fylling:
1 krukka grænt pestó
1 bréf skinka, skorin í bita
50 g svartar ólfur, saxaðar
50 g sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 kúla mozzarella ostur skorin í bita
4 msk rifinn parmesanostur
pipar

Ofan á líka rifinn parmesanostur

Blandið saman pestói, skinku, ólífum, tómötum, hvítlauk, mozzarella og 4 msk af parmesanosti.  Piprið eftir smekk.  Smyrjið blöndunni á brauðið og rúllið upp.  Stráið rifnum parmesanosti yfir og bakið við 180 gráður í 10-15 mínútur.

 


Grænkálsbaka með beikoni, lauk og piparosti

smjörúði
300 g smjördeig
500 g gular baunir eða aðrar þurrkaðar baunir (notað til að forbaka deigið þannig að þær skipta ekki aðalmáli)
lítill pakki beikon eða kannski 5-7 sneiðar
1 stór laukur, skorinn í sneiðar og steiktur
200 g grænkál, skorið í bita og soðið í 3 mín (væri hægt að nota broccoli þarna í staðinn)
1/2 piparostur, skorinn í þunnar sneiðar
3 egg
1/2 dl mjólk
salt og pipar

Hita ofninn í 180 gráður.  Úða í bökuformið með smjörúðanum.  Fletja smjördeig út þar til það er ca 4-5 mm á þykkt gatið deigið með gaffli.  Leggið deigið ofan á formið og þrýstið köntunum niður.  Skerið umframdeig frá.  Hellið baununum ofan á deigið og bakið í 15 mín.  Baunirnar koma í veg fyrir að deigið lyfti sér.  Hellið baununum úr forminu.  Setjið beikon, lauk, grænkál og ost í formið.  Blandið saman eggjum og mjólk ásamt salt og pipar.  Hellið blöndunni í formið og bakið í 20 mín. 
Fyrir þá sem það vilja er gott að drekka með þessari böku ferskt sauvignon blanc t.d. Beringer Fumé Blanc eða Sancerre frá Frank Millet. 


Kæfubrauðterta m/bæði grófu og fínu brauði

2 brauðtertubrauð
1 gróft brauð
400 g góð lifrarkæfa
rjómi/mjólk
200 g rjómaostur hreinn eða m/kryddjurtum
300 g sýrður rjómi
1 salathöfuð sneitt fínt

Skera skorpu utan af öllu brauðinu.  Mýkið lifrarkæfuna með smávegis rjóma eða mjólk.  Mýkið rjómaost og blandið sýrðum rjóma út í.  Setjið tvær lengjur af fínu brauði á disk og smyrjið með lifrarkæfu.  Setjið lag af grófu brauði ofan á og smyrjið með rjómaostablöndu, setjið svolítið af salati með.  Setjið til skiptis báðar brauðtegundirnar, lifrarkæfu og rjómaostablöndu þar til brauð klárast eða tertan orðin nógu há. 

Utan á brauðtertuna:  Smyrjið tertuna að utan með majónesi blandað við mangó-karrýsósu.  Salat sett t.d. á hliðarnar.  Ostasneið rúllað utan um 1/2 ólífu og raðað ofan á ásamt þunnum laxasneiðum, rækjum og rauðum kavíar.  Einnig sniðugt að raða nokkrum dill eða kóríanderkvistum ofan á ásamt radísum, kumquat og fínt rifnum gulrótum. 


Sjávarréttabrauðterta m/rósmarín, hvítlauk og hvítkáli

1 brauðtertubrauð, langskorið og skorpa skorin frá

Fylling:
2 msk olía
1 laukur, fínt saxaður
2-3 hvítlauksgeirar, pressaðir
2 msk rósmarínnálar
2 dl hvítvín
100 g hörpuskel
200 g einhver hvítur fiskur skorinn í bita
100 g rækjur
1/4 hvítkálshöfuð, gróft rifið með rifjárni
400 g sítrónumajones
salt og pipar

Hita olíu í pott og látið lauk, hvítlauk og rósmarín krauma í henni í mínútu.  Bætið þá hvítvíni, hörpuskel og hvítum fiski í pottinn og hleypið suðunni rólega upp í 2 mín.  Veiðið fiskinn upp úr soðinu og kælið.  Sjóðið soðið niður um 3/4 og kælið.  Takið nokkrar rækjur, hörpuskel og hvítan fisk frá og geymið til skrauts, setjið restina af fiskinum og fiskisoðinu í matvinnsluvél og grófmaukið.  Setjið maukið í skál ásamt hvítkáli og sítrónumajonesi (hvítara heldur en þetta venjulega og blandað við sýrðan rjóma) og blandið vel saman.  Smakkið til með salti og pipar.  Smyrjið á ca 4-5 brauðtertusneiðar með maukinu og leggið saman.  Skreytið tertuna með fiskinum sem var tekinn var frá, ferskum kryddjurtum og fleiru sem ykku dettur í hug.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband